Umhverfið

Samkaup ætla að vera leiðandi í umhverfis- og samfélagsmálum á smásölumarkaði. Samkaup leggja áherslu á að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af starfseminni og nýta auðlindir eins og kostur er. Samkaup leggja einnig áherslu á samfélagslega ábyrgð í allri starfseminni sem endurspeglar metnað fyrirtækisins til að vera traustur og virkur þátttakandi í samfélaginu. Áhersla á samfélagið og umhverfið nær til allrar starfseminnar. Lög og reglur í umhverfismálum eru uppfylltar á öllum starfsstöðvum.

Samkaup ætla að vera fremst allra verslunarfyrirtækja á Íslandi til að:

Stuðla að aukinni hringrás afurða í verslunum og minnka sóun til hins ýtrasta.
Flokka sorp eins vel og hægt er í öllum verslunum og vinnustöðum innan félagsins.
Minnka kolefnisspor sitt markvisst á hverju ári.
Vera leiðandi í umhverfis- og samfélagsmálum í heimi verslunar og þjónustu og þannig skapa sérstöðu.
Sýna samfélagslega ábyrgð í verki.
Huga að flutningsleiðum á birgðum og sorpi til og frá verslunum.

Umhverfislegur ávinningur:

Með aukinni vitund og aukinni flokkun á sorpi er dregið úr sóun og umhverfisáhrifum.
Aukin sjálfbærni í verslunum.
Aukið gagnsæi í úrgangsstjórnun.
Hringrásin fer alla leið í okkar nærumhverfi.
Kolefnissporið minnkar.

Samfélagslegur ávinningur

Jákvæðari ímynd Samkaupa um allt land.
Samvinna og samstarf við sveitarfélögin.
Aukin hringrásarvitund og sjálfbærni.
Við sýnum samfélagslegan ávinning og ábyrgð gagnvart okkar viðskiptavinum.
Stefnum að okkar eigin hringrás með jarðvegsbúnaði frá Pure North; lífrænn úrgangur verður að jarðvegi í stað sorps.

Fjárhagslegur ávinningur

Aukna væntingar með meiri og ítarlegri úrgangsflokkun
Rafræn mælaborð til að halda betur utan um úrgangslosun á landsvísu með góðu gagnsæi og eftirfylgni.
Fræðsla til starfsfólks.
Flokkun sorps, aukið gagnsæi og mikil eftirfylgni

Árangur í umhverfismálum

Samkaup ætla sér að vera leiðandi í úrgangsstjórnun á landsvísu. Nýjar áherslur hafa nú þegar skilað árangri en heildarkostnaður úrgangsmála dróst mikið saman síðustu þrjá mánuði ársins 2023. 

CO₂ losun

Lykiltölur úr umhverfisbókhaldi Samkaupa

Losun úrgangs

Hlutfall flokkaðs úrgangs

Raforkunotkun

Eldsneyti

CO₂ losun

Árangur í umhverfismálum

Allir frystar sem hafa verið keyptir nýir eru með lokum, til að spara orku. Öllum frystum í verslunum hefur verið lokað, sem leitt hefur til 40% minni orkunotkunar.
Notkun á orkugjöfum eins og rafmagni, heitu og köldu vatni er mæld mánaðarlega fyrir hverja verslun Samkaupa. Þannig er hægt að koma í veg fyrir óþarfa orkunotkun strax og gera viðeigandi ráðstafanir til að nýta þessa auðlind betur.
Tilraunaverkefni er hafið í lokuðum kælum verslana sem hefur leitt til 20% minni orkunotkunar. Orka sem kemur frá kælivélum er nýtt til húshitunar ef kostur er.
Í netverslun er notast við pappapoka ásamt fjölnota plastboxum.
Fjölnota pokar hafa verið í notkun í mörg ár en hafa verið gerðir meira áberandi og viðskiptavinir hvattir til að nýta þá. Viðskiptavinir geta skipt út gömlum fjölnota pokum.
Árlega er starfsfólk í verslunum þjálfað í umhverfismálum í samvinnu við þjónustuaðila Samkaupa.
Rafræn samskipti í bókhalds- og reikningshaldi.
Allir bílar í heimkeyrslu fyrir netverslun eru rafbílar.
Við höfum tekið upp rafrænar hillumerkingar í stað límmiða til að draga úr pappírsnotkun.
Við hófum notkun á rafrænum kvittunum í Samkaupaappinu til að draga úr pappírsnotkun.
Við tókum upp samstarf við Hjálpræðisherinn sem nýtir matvæli sem eru að renna út í heilsusamlegar máltíðir.
Við fækkuðum utanlandsferðum, sóttum frekar fjarfundi og hagnýttum tæknilausnir til að draga úr mengun.
Við gengum frá samningum um enn fleiri hraðhleðslustöðvar við verslanir Samkaupa til að koma til móts við rafbílaeigendur.

Aðgerðir í umhverfismálum

Samkaup réðu Bergrúnu Ósk Ólafsdóttur sem verkefnastjóra umhverfis og samfélags í ágúst 2023. Hún mun leiða samstarf Samkaupa og Pure North sem felur í sér heildstæða ráðgjöf í úrgangsstjórnun samhliða eftirfylgni með umhverfismarkmiðum Samkaupa og verslana fyrirtækisins: Nettó, Kjörbúðinni, Krambúðinni og Iceland. Bergrún hlaut Umhverfisviðurkenningu Reykjanesbæjar árið 2023 fyrir frumkvæði í sjálfbærnimálum og þátttöku í hringrásarhagkerfinu. 

Samstarf við Pure North

Haustið 2023 hófst samstarf Samkaupa og Pure North í úrgangsmálum. Eitt af verkefnunum er að innleiða bætta meðhöndlun á lífrænum úrgangi sem fellur til í verslunum. Farvegir fyrir lífrænan úrgang eru fáir á Íslandi og oft langar vegalengdir sem þarf að keyra með úrganginn. Jarðgerðarvélar Pure North leysa þennan vanda af hólmi þar sem úrgangurinn er unninn á staðnum og notaður síðan í nærumhverfinu, þar sem næringarefnum er skilað aftur inn í náttúrulega hringrás. Innleiðingin er hafin á landsbyggðinni og var Krambúðin við Mývatn fyrsta verslunin sem fékk jarðgerðarvél til afnota. Þar munu skóli og leikskóli á svæðinu nýta allan jarðvegsúrgang sem til fellur til uppgræðslu og ræktunar á grænmeti.

Innleiðing Úlla

Stærsta skrefið í samstarfinu við Pure North hingað til var innleiðing á úrgangsstjórnunarkerfinu Úlla sem heldur utan um alla frammistöðu Samkaupa í úrgangsmálum er varðar flokkun, kostnað og magn úrgangs. Úlli gefur ítarlegar og haldbærar upplýsingar um hvar helstu tækifæri til umbóta liggja, kemur í veg fyrir kostnaðarleka og gefur heildstæða yfirsýn yfir málaflokkinn. Gögn úr Úlla sýna t.d. aukna flokkun en flokkunarhlutfall hækkaði upp fyrir 60% árið 2023. Gögnin sýna einnig hvaða verslun stóð sig best á árinu.

Grænir fyrirliðar

Grænir fyrirliðar auka umhverfisvitund innan Samkaupa og hvetja starfsfólk á hverri starfsstöð til að taki aukna ábyrgð. Þeir eru boðberar þekkingar og fræðslu á því að hvernig hver starfsstöð getur orðið eins sjálfbær og mögulegt er. Græni fyrirliðinn er einn af hlekkjunum í ferli okkar að fullkominni hringrás á landsvísu og jákvæð fyrirmynd innan starfshópa Samkaupa.

Kröfur til samstarfsaðila

Við kaup á vörum á þjónustu er tekið mið af umhverfis- og samfélagsstefnu Samkaupa og gerðar skýrar kröfur til birgja og undirverktaka um að þeir fylgi henni. Á það einnig við um þeirra birgja og undirverktaka. Stöðugt er unnið að umbótum á grundvelli stefnunnar til að bæta árangur markvisst. 

Mælanleg markmið

Samkaup nýta sér Laufið, stafrænan vettvang til að stuðla enn frekar að sjálfbærri þróun atvinnulífs á Íslandi. Með notkun Laufsins ná Samkaup að halda vel utan um sjálfbærnivegferð fyrirtækisins í vottunarferlinu undir Grænum skrefum. Með Grænum skrefum fylgjum við mælanlegum markmiðum eftir varðandi umhverfisáhrif, félagslega þætti, sjálfbærnivegferð og stjórnunarhætti. 

Á laufid.is geta neytendur leitað að fyrirtækjum, vörum og þjónustu og séð nákvæmlega hvað fyrirtæki eru að gera í umhverfis- og sjálfbærnimálum, gert samanburð á fyrirtækjum, leitað að vottuðum vörum og tekið upplýstar ákvarðanir um hvaða vörur og þjónustu þeir kjósa að versla og við hvaða fyrirtæki.

Hringrás alla leið

Samkaup stuðla að aukinni hringrás afurða í verslunum og minni sóun með ítarlegri flokkun sorps. Þannig minnkar kolefnissporið markvisst á hverju ári. Hugað er sérstaklega að flutningsleiðum á vörum og sorpi til og frá verslunum og starfsstöðvum Samkaupa. Virðiskeðja frá vöruhúsi til afhendingar til viðskiptavinar er teiknuð upp og betrumbætt.

Vöktun umhverfisþátta

Til að vinna markvisst að betri árangri í umhverfismálum hafa Samkaup innleitt umhverfisstjórnunarhugbúnað frá Klöppum. Með hugbúnaðinum er unnt að vakta og greina alla helstu umhverfisþætti í starfseminni og vinna að lágmörkun umhverfisáhrifa. Vöktunin nær til allra verslana og starfsstöðva Samkaupa.  

Fyrsta heila árið sem umhverfisbókahaldið nær yfir er 2019. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa en árið 2020 lækkaði kolefnisspor fyrirtækisins um 11% samanborið við 2019. Árið 2021 var svo lyft grettistaki þegar kolefnisspor fyrirtækisins lækkaði um 27% frá fyrra ári þrátt fyrir að þrjár nýjar verslanir opnuðu árið 2020. Árið 2022 lækkaði kolefnissporið um 11% en um 6% árið 2023.

Í umhverfisbókhaldinu er unnt er að fylgjast með:

  • Losun CO₂ í tonnum.
  • Eldsneytisnotkun.
  • Rafmagnsnotkun.
  • Sorpi.
  • Notkun á heitu vatni.
  • Notkun á köldu vatni.

Við áttum okkur á því að starfsemi okkar hefur neikvæð áhrif á umhverfið beint og óbeint. Aðgerðir okkar miða að því að lágmarka þessi áhrif og fara í mótvægisaðgerðir. 

Heitavatnsnotkun er að mestu áætluð því ekki er hægt að styðjast við staðfest raungögn. Gert er ráð fyrir að hún hafi staðið í stað á milli ára.

Kolviður og Opnir skógar

Samkaup undirrituðu samning við Kolvið árið 2020 til að kolefnisjafna starfsemi félagsins hvert ár. Markmið samningsins er að binda kolefni (CO₂) sem fellur til vegna starfsemi Samkaupa hf. Kolefnisbindingin á sér stað í gróðri og jarðvegi með landgræðslu og skógrækt sem Kolviður hefur umsjón með.

Samkaup gerðu tveggja ára samkomulag við Skógræktarfélag Íslands um Opna skóga árið 2020. Markmiðið með samstarfinu er að bæta aðstöðu og auka aðgengi að opnum skógræktarsvæðum í alfaraleið og miðla upplýsingum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu svo almenningur geti nýtt sér skóga til áningar, útivistar og heilsubótar. 

Árið 2023 voru skógarnir 17 kynntir sérstaklega sem Nettóskógar og fólk hvatt til að staldra við þar á leið sinni um landið. Skógarnir eru auðþekkjanlegir því þar blakta bláir Nettófánar. Nettóskógarnir voru notaðir til að kolefnisjafna Bylgjulestina.

Umhverfisvænni verslanir Samkaupa

Smám saman verða allar verslanir Samkaupa umhverfisvænni. Þegar verslun er gerð upp eða ný verslun opnar eru öll tæki og öll starfsemi skipulögð með Grænu skrefin í huga. Kælikerfi er knúið koltvísýringi í stað annarra kælimiðla sem eru slæmir fyrir umhverfið. Öll kælitæki eru lokuð til að spara orku og lýsingin er með LED-perum. 

Eftirfarandi verslanir eru orðnar umhverfisvænni:

  • Nettó Krossmóa
  • Nettó Mosfellsbæ
  • Nettó Selhellu
  • Nettó Engihjalla
  • Nettó Grindavík
  • Nettó Glerártorgi 
  • Krambúðin Urriðaholti 

Árið 2024 verða eftirfarandi verslanir umhverfisvænni:

  • Nettó Eyrarvegi
  • Nettó Seljabraut
  • Nettó Glæsibæ

Flokkun sorps

Árið 2023 tóku í gildi breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs sem m.a. hafa í för með sér breytingar sem hafa áhrif á flokkunarkerfi Samkaupa og flokkunarmerkingar. Í samræmi 

við lögin má ekki flokka plast og pappír saman og sú breyting hefur þegar verið innleidd í öllum verslunum Samkaupa.

Endurvinnsluhlutfall hækkar stöðugt

Á hverju ári er flokkunarárangur Samkaupa skoðaður og er ávallt spennandi að sjá hvernig flokkun hefur gengið. Fyrirtækið vill vera leiðandi í umhverfismálum á smásölumarkaði og starfsfólk hefur metnað fyrir því að ná árangri í flokkun. 

Markmið okkar er að halda almennu sorpi í algjöru lágmarki og við setjum okkur markmið um að auka flokkunarhlutfall á milli ára. Flokkunarmarkmið ársins 2022 var að ná 50% endurvinnsluhlutfalli í öllum verslunum. Hjá Samkaupum í heild var hlutfallið 62,1% árið 2023. Starfsfólk Kjörbúðarinnar á Djúpavogi stóð sig hins vegar best í flokkun og státaði verslunin af 80% endurvinnsluhlutfalli.

Mælanlegur flokkunarárangur

Íslenska gámafélagið (ÍGF) hefur fylgst með magntölum og flokkunarárangri Samkaupa undanfarin ár og metið árlega. Teknar eru saman magntölur helstu úrgangsflokka og bornar saman við fyrri ár. Með þessum samanburði er hægt að fá heildaryfirsýn, greina það sem vel gengur og fara yfir mögulegar úrbætur á því sem mætti betur fara. 

Þeir úrgangsflokkar sem sóttir eru til Samkaupa og skoðaðir sérstaklega eru: Almennt sorp (blandaður úrgangur), lífrænn úrgangur og bylgjupappi. Árið 2023 var heildarmagn þessa úrgangsflokka 1.816 tonn og lækkaði það um 289 tonn á milli ára.

Þróun magns í helstu úrgangsflokkum 

Magn almenns sorps var 761 tonn og hefur lækkað um tæp 197 tonn frá árinu áður. Af heildarmagni almenns sorps sem ÍGF sótti frá verslunum Samkaupa voru 391 tonn sem fóru í brennslu til orkunýtingar í Evrópu, eða 51%. Það er allt almennt sorp frá höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi. 

Magn lífræns úrgangs var 197 tonn árið 2023 og hefur lækkað um 25 tonn frá árinu áður þegar það var 223 tonn.

Árið 2022 var heildarmagn helstu úrgangsflokka, almenns sorps, lífræns eldhússúrgangs og bylgjupappa, sem Íslenska gámafélagið (ÍGF) sótti til Samkaupa, um 2.105 tonn. Það er örlítil hækkun á heildarmagni á milli ára þar sem úrgangur nam 2.070 tonnum árið 2021. Tafla 1 og mynd 1 sýna þróun magns á helstu úrgangsflokkum frá 2012.

Minni sóun

Frá árinu 2007 hefur starfsfólk Samkaupa stöðugt stigið fleiri skref í átt að meiri umhverfisvernd, allt frá aukinni sorpflokkun og almennri endurnýtingu til meiri orkusparnaðar og endurnýtingar orku. Um mitt ár 2015 tóku Samkaup upp átakið „Minni sóun – allt nýtt“ til að stuðla að minni sóun matvæla.

Allar verslanir Samkaupa hafa síðan þá boðið upp á stigvaxandi afslátt af vörum sem nálgast síðasta söludag. Vöruverð lækkar eftir því sem líftími vöru styttist og stuðlar þetta að minni sóun matvöru. Átakið hefur farið stigvaxandi síðustu ár og náði hámarki árið 2022. Afslættir í gegnum átakið „Minni sóun – allt nýtt“ námu tæplega 365 milljónum í fyrra.

Ár Selt magn Afsláttur án vsk
2019 657.470 247.039.216
2020 715.434 297.837.469
2021 753.562 316.544.304
2022 1.060.230 446.471.005
2023 1.151.536 538.294.699
Samtals 2.976.773 1.225.485.872

Kaupum rétt

Innkaupa- og vörustýringarsvið Samkaupa leggur metnað í að velja vörur sem stuðla að umhverfisvænni verslun og miða að breyttu neyslumynstri viðskiptavina. Dæmi um þetta er Änglamark-vörumerkið sem stendur fyrir sjálfbærni og lífrænar vörur. Þá hefur einnig vörumerkið 365 Coop bæst við en það stendur fyrir sömu gildi. Vörurnar eru framleiddar úr bestu fáanlegu gæðahráefnum. Þær eru lífrænar, umhverfisvænar og án ofnæmisvaldandi efna.

Änglamark hefur sterka stöðu á Norðurlöndunum og hefur hlotið mikið lof. Í Danmörku hefur merkið náð sjöunda sæti á topp tíu lista YouGov Brand Index (sem mælir upplifun neytenda af vörumerkjum) og fimmta sæti á Women’s Favorite Brand List. Í Noregi hefur Änglamark hlotið nafnbótina „Grænasta vörumerki Noregs“ og sömu viðurkenningu í Svíþjóð 12 ár í röð. Með Änglamark náum við að mæta þörfum markaðarins og erum stolt af því að geta boðið upp á margverðlaunað gæðamerki líkt og Änglamark.

Innlend grænmetis- og ávaxtaræktun

Samkaup hafa á undanförnum árum unnið markvisst að því að auka sölu á íslenskum afurðum. Með góðu samstarfi við bændur og smáframleiðendur færumst við nær markmiðum okkar, tryggjum framboð og fjölbreytileika tegunda, lágmörkum sóun og styðjum við sölu á þeim eftirsóttu matvörum sem eru framleiddar á Íslandi.

Með þéttu neti framleiðenda í öllum landsfjórðungum lágmörkum við kolefnisspor með því að selja vörurnar á nærsvæði hvers framleiðanda.

Nokkur framþróun hefur orðið í afbrigðum margra tegunda, framleiðsluháttum, húsakostum og geymsluskilyrðum sem nú gera okkur kleift að bjóða upp á fleiri íslenskar afurðir árið um kring. Með þessari framþróun náum við að lágmarka innflutning á vörutegundum sem eru framleiddar hérlendis, enda hefur það sýnt sig að neytendur kjósa íslenskt sé þess kostur.

Árið 2023 tókum við í gagnið nýja aðstöðu fyrir stykkjatínslu á ávöxtum og grænmeti í vöruhúsi. Þar gefst verslunum kostur á að panta vörur í litlu magni, en þess í stað örar en ella, til að hámarka gæði vörunnar og lágmarka sóun.

Margir þættir spila saman

Þegar kemur að samfélags- og umhverfismálum skiptir allt máli, þ.e. hver einasta kílóvattstund sem sparast með hagstæðari orkunotkun, hver einasti poki sem er endurnýttur, hver einasti starfsmaður sem fær þjálfun og fræðslu og hver einasti reikningur sem er sendur með tölvupósti en ekki á pappír telur þegar heildarmyndin er skoðuð.