Samkaupaliðið

Mannauður Samkaupa

Nokkrar skemmtilegar staðreyndir um starfsfólk Samkaupa.

Hjá Samkaupum starfar fólk af 38 þjóðernum frá 4 heimsálfum.
Algengasta nafnið meðal starfsfólks Samkaupa er Sigurður.
Kynjahlutfall starfsfólks er mjög jafnt: 48% eru karlar, 51% konur og 1% með hlutlausa skráningu.
Hjá Samkaupum starfa flestir á höfuðborgarsvæðinu, eða 463. 284 eru á Norðurlandi og 205 á Suðurnesjum.
Dreifing afmælisdaga er nokkuð jöfn en meðal starfsfólks eru flestir krabbar, naut og sporðdrekar.
Hjá Samkaupum starfar fólk á öllum aldri en flestir eru 19 ára og yngri, eða 563. 352 eru í aldurshópnum 20–29 ára og 206 í hópnum 30–39.

Jafnrétti

Jafnrétti á vinnustaðnum og jafnrétti í samfélaginu hafa verið sérstök áhersluverkefni hjá Samkaupum síðustu ár. Framkvæmdastjórn Samkaupa hefur skuldbundið sig í allri stefnumótun að stuðla að auknu jafnrétti og samþykkt jafnréttisáætlun fyrirtækisins sem er hluti af mannauðsstefnu félagsins. Framkvæmdastjórn Samkaupa hefur samþykkt jafnréttisáætlun, sem er í samræmi við lög nr. 10/2008, nr. 86/2018, nr. 80/2019, sem og önnur lög, reglur og kröfur er snerta jafnréttismál og gilda á hverjum tíma fyrir sig.

Stefna Samkaupa í jafnréttismálum

Samkaup leggja áherslu á jafnrétti kynjanna og að nýta til jafns styrkleika allra kynja þannig að hæfileikar, kraftar og færni alls starfsfólks fyrirtækisins njóti sín sem best. Með jafnréttisáætlun Samkaupa hafa stjórnendur skuldbundið sig til að leggja áherslu á jafnrétti þar sem hver einstaklingur er metinn að verðleikum eftir hæfni og frammistöðu.

Samkaup greiða starfsfólki af öllum kynjum jöfn laun og bjóða sömu kjör fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. 

Samkaup bjóða jafnan aðgang að störfum ásamt jöfnum tækifærum til framgangs í starfi, óháð kyni, kynhneigð, þjóðerni eða fötlunar.

Samkaup bjóða starfsfólki sömu tækifæri til að þróast í starfi með starfsþjálfun, menntun og fræðslu, óháð kyni, kynhneigð, þjóðerni eða fötlunar.

Samkaup leggja áherslu á að vera fjölskylduvænn vinnustaður þar sem hægt er að samræma skyldur fjölskyldu og atvinnulífs.

Samkaup líða ekki kynbundna eða kynferðislega áreitni, einelti eða ofbeldi á nokkurn hátt. Hjá Samkaupum er lögð áhersla á að allt starfsfólk sé metið að verðleikum og njóti jafnra tækifæra á vinnustaðnum. Starfsfólki er ekki mismunað á grundvelli kyns, kynþáttar eða þjóðernis, kynhneigðar, aldurs, trúar, fötlunar, skoðana eða annarra þátta. Árlega rýna stjórnendur stefnuna ásamt jafnréttisáætlun, jafnréttismarkmiðum og vinna að stöðugum umbótum.

Samráð, jafnréttisráð Samkaupa

Ötullega var unnið að jafnréttismálum allt árið 2023 og voru fjölmörg mál tekin fyrir þar sem jafnrétti var haft að leiðarljósi við úrlausnina. Jafnréttisráð Samkaupa, Samráð, sem er skipað starfsfólki fyrirtækisins úr öllum áttum, vakti einnig athygli á mörgum atriðum sem varða starfsemina, m.a. starfsmannamálum, málum tengdum birgjum og samstarfsaðilum. Sum málanna voru tekin fyrir af framkvæmdastjórn og úr varð gott samstarf á milli framkvæmdastjórnar og Samráðs.

Samkaup leggja mikla áherslu á að vera fjölbreyttur vinnustaður þar sem allt starfsfólk er metið að verðleikum. Haustið 2021 var farið í sérstakt átak til að varpa ljósi á hvar fordómar geta legið og skapa fordómalaust umhverfi innan Samkaupa, fyrir allt starfsfólk og aðra sem að vinnustaðnum standa. Átakið fól meðal annars í sér samstarf við Samtökin '78, Þroskahjálp og Mirru, rannsókna- og fræðslusetur fyrir erlent starfsfólk, um fræðslu fyrir starfsfólk fyrirtækisins.

Vottun jafnréttisstefnu 

Samkaup endurnýjuðu jafnréttisáætlun sína í lok árs 2023. Samtímis vottaði Jafnréttistofa útvíkkaða jafnréttisstefnu Samkaupa sem félagið byrjaði að vinna eftir árið 2022. Samkaup fengu fyrirmyndareinkunn og er jafnréttisstefna Samkaupa þar með vottuð til loka árs 2026.

Jafnlaunavottun

Þegar heildarfjöldi stjórnenda er skoðaður út frá kynjahlutföllum er jafnvægi á milli kynja mjög gott, 44% karlar og 56% konur. Stærsti hópur stjórnenda félagsins eru verslunarstjórar sem eru 64 talsins. Þegar litið er á kynjaskiptingu verslunarstjóra er jafnvægi gott: 44% karlar, 55% konur og 2% kynsegin. Þá hefur verið lögð áhersla á að fjölga konum í efsta stjórnendalagi félagsins sérstaklega og í dag er 67% framkvæmdastjóra kvenkyns. 

Árið 2018 hlaut félagið jafnlaunavottun án athugasemda og fór félagið í gegnum sjöttu úttektina á jafnlaunakerfinu í desember 2023 án athugasemda. Félagið hefur fengið hrós fyrir skilvirkt og gott kerfi sem er að skila markvissum árangri. Aðgerðir síðustu ára hafa skilað því að launamunur er vart mælanlegur, eða 0,4%.

Þróun launamunar hjá Samkaupum

Velferðar­þjónustan

Velferðarþjónustu Samkaupa er ætlað að stuðla að auknum lífsgæðum starfsfólks og að Samkaup bjóði upp á þjónustu til að takast á við óvænt áföll og erfiðleika ásamt því að auka ánægju og öryggi alls starfsfólks. Velferðarþjónustan tryggir að starfsfólk og nánustu ættingjar þeirra geti leitað aðstoðar hjá breiðum hópi fagaðila vegna persónulegra mála sér að kostnaðarlausu og án milligöngu stjórnenda fyrirtækisins. Heilsuvernd hefur umsjón með velferðarþjónustunni fyrir Samkaup.

Starfsfólki býðst að meðaltali 3 klukkustundir í þjónustu á ári sem það getur ráðstafað en hámarksaðstoð til einstaks starfsmanns getur numið allt að 6 klukkustundum á ári. Eftirfarandi þjónustuþættir standa starfsfólki Samkaupa til boða:

Lífsstílsráðgjöf

Mataræði, svefn og hreyfing, þyngdarstjórnun, reykingar, hár blóðþrýstingur, há blóðfita, offita og áunnin sykursýki eða hætta á slíkum lífsstílssjúkdómum – fyrir þá sem þurfa á stuðningi við breyttan lífsstíl að halda til frambúðar.

Hjónabands- og fjölskylduráðgjöf

Tekur mið af áhrifamætti fjölskylduheildarinnar og velferð hennar höfð að leiðarljósi: Samspil atvinnu- og fjölskyldulífs, ofbeldi á heimilum, vandamál með börn og/eða unglinga, hjúskaparerfiðleikar.

Vandamál tengd fíkn

Áfengis-, vímuefna- og spilafíkn. Meðferð, forvarnir og ráðgjöf.

Fjámálaráðgjöf

Gjaldþrot, greiðslustöðvanir, ráðgjöf til einstaklinga og fjölskyldna sem eiga í greiðsluerfiðleikum, aðstoð við að öðlast heildaryfirsýn yfir fjármálin og leitun leiða til lausnar. Einnig greina ástæður greiðsluvanda og gera tillögur til úrbóta.

Streitu- og tilfinningastjórnun

Viðbrögð við streitu- og álagstengdri vanlíðan á vinnustað og heima fyrir. Þjónar þeim tilgangi að auka vellíðan í starfi.

Ráðgjafarþjónusta geðlæknis eða geðhjúkrunarfræðings

Geðskoðun, mat og ráðleggingar vegna geðraskana. Sérstök áhersla á einstaklinga sem hafa einkenni þunglyndis og kvíða.

Sálfræðiráðgjöf

Viðtöl vegna ýmiss konar erfiðleika. Ráðgjöf til unglinga og foreldra. Samskiptavandamál í vinnu og heima fyrir, færni og frami.

Lögfræðiráðgjöf

Sambúðarslit, skilnaðar- og forræðismál, gjaldþrot, samningar eða úrlausnarúrræði. Veita upplýsingar um réttarstöðu viðkomandi.

Áfallahjálp

Sálræn skyndihjálp. Stuðningur við þolendur áfalla. Tilfinningaleg úrvinnsla fyrir einstaklinga, fjölskyldur og hópa. Fræðsla og upplýsingar um algeng sálræn og líkamleg viðbrögð sem komið geta fram við þessar aðstæður og úrræði við þeim. Mat á áhættuþáttum og þörf fyrir eftirfylgni.

Starfsendurhæfing

Aðstoð vegna óvinnufærni með það að markmiði að starfsmaður nái sem fyrst hæfni til að takast á við athafnir daglegs lífs.

Aðstoð vegna langvarandi heilsubrests

Aðstoð við að greina og meta úrræði vegna langvarandi heilsubrests í nánustu fjölskyldu (foreldrar, makar og börn). Aðstoð við að meta og greina úrræði vegna langvarandi veikinda í nánustu fjölskyldu starfsmanns.

Svefnmeðferð

Skert gæði svefns geta aukið streitu og kvíða, skert minni og minnkað einbeitingu. Með hugrænni atferlismeðferð er hægt að bæta svefn og koma í veg fyrir notkun svefnlyfja.

Menntun og fræðsla

Samkaup eru leiðandi í menntun og fræðslu á meðal fyrirtækja á Íslandi og hefur fyrirtækið sett sér markvissa stefnu í að leggja aukna áherslu á formlegar menntunarleiðir innan verslunar og þjónustu.

Samkaup leggja ríka áherslu á að styðja starfsfólk sitt áfram til starfsþróunar og er eitt af meginmarkmiðum fyrirtækisins að starfsfólk Samkaupa fái tækifæri til að stunda nám samhliða vinnu sem opnar á möguleika til frekari starfsþróunar innan fyrirtækisins og utan þess.

Markmið Samkaupa þegar kemur að fræðslu og menntun starfsfólks eru:

  • Að bæta hæfni og færni starfsfólks í kaupmennsku, þjónustu og verslunarrekstri.
  • Að efla framkomu og þjónustulund starfsfólks við viðskiptavini Samkaupa.
  • Að fyrirtækið styrki einstaklinginn til starfsþróunar.
  • Að auka starfsánægju og jákvætt viðhorf starfsfólks.
  • Að efla menntunarstig starfsfólks Samkaupa til framtíðar.
  • Að gera Samkaup að eftirsóttum vinnustað sem styður fólk áfram til framtíðar.

Samkaup hafa átt gott samstarf bæði við Háskólann á Bifröst og Verzlunarskóla Íslands. 

Samstarfið við Verzlunarskólann er tvíþætt, annars vegar hefur nemendum sem stunda nám við skólann gefist tækifæri á að taka sitt starfsnám hjá Samkaupum og hins vegar gefst starfsfólki Samkaupa kostur á að skrá sig í Verslunarfagnám við skólann. Alls hafa 23 starfsmenn Samkaupa útskrifast úr Verslunarfagnáminu.

Bergrún Ósk Ólafsdóttir, verkefnastjóri umhverfis og samfélags hjá Samkaupum, var fengin til að kenna valáfanga í Verzlunarskólanum vorönn 2024 þar sem lögð er áhersla á umhverfismál, m.a. sorpflokkun, hvernig hægt sé að gera hana „töff“ og meira áberandi í verslunum Samkaupa.

Starfsfólk Samkaupa hefur ýmist sótt fjölbreytt námskeið við Háskólann á Bifröst eða stundað lengra nám við skólann á grunn- eða meistarastigi. Að auki hafa Samkaup í samstarfi við háskólann hannað sérstakt leiðtoganám fyrir starfandi stjórnendur í verslunum. Nú þegar hafa tveir hópar stjórnenda, alls 16 starfsmenn, útskrifast úr náminu og þriðji hópurinn mun hefja nám á árinu 2024.